Innlent

Flóttamaður vann mál gegn ríkinu

Tæplega þrítugur karlmaður, Mamadou Daillo, vann í dag mál sem hann höfðaði gegn Útlendingastofnun og íslenska ríkinu. Maðurinn er frá Máritaníu og kom hingað til lands frá Amsterdam árið 2004.

Hann óskaði þá eftir hæli á Íslandi sem Útlendingastofnun synjaði árið 2006. Dóms og kirkjumálaráðuneyti staðfesti svo ákvörðunina.

Daillo krafðist þess að héraðsdómur ógilti þessa ákvörðun á þeim forsendum að Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að kanna þær aðstæður sem Daillo hafi borið fyrir sig við hælisumsóknina.

Útlendingastofunun sendi fyrirspurn um ástand mála í Máritaníu til Sameinuðu þjóðanna þegar verið var að meta umsókn Daillo en tók ákvörðun um að synja honum um hæli áður en svar fékkst við fyrirspurninni.

Héraðsdómur komst því að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Útlendingastofnunnar um að synja Daillo um hæli hefði ekki verið byggð á fullnægjandi upplýs­ingum um aðstæður hans í heimalandi sínu. Þannig hafi ekki verið unnt að meta hvort Daillo hefði lögmæta ástæðu til að óttast að vera áfram í Máritaníu eða ekki.

Því var ákvörðun Útlendingastofnunnar og íslenska ríkisins felld úr gildi. Málið er komið aftur á byrjunarreit. Daillo mun að öllum líkindum sækja aftur um pólitískt hæli og Útlendingastofnun verður að fjalla um umsókn hans upp á nýtt og taka ákvörðun í kjölfarið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×