Innlent

Vill að öll þingmannamál fái afgreiðslu

MYND/GVA

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, vill að öll frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi fái afgreiðslu úr nefndum, hvort sem þau eru felld eða samþykkt. Þetta kom fram í ræðu hans við setningu Alþingis í dag.

Sturla benti á að það hefði verið gagnrýnt að nefndir þingsins lægju á þingmannamálum og að slíkt hefði bitnað jafnt á þingmálum stjórnarþingmanna og stjórnarandstæðinga. Það væri orðið tímabært að breyta þessu og eðlilegt væri að nefndir afgreiddu öll mál úr nefnd.

Þingið ætti að vera ófeimið við að fella mál sem ekki væri stuðningur við og sömuleiðis veita þeim málum brautargengi sem meirihluti væri á bak við. Sagðist hann myndu ræða þessi mál við þingflokksformenn. Með þessu ætti að treysta stöðu þingsins sem megin vettvangs pólitískrar umræðu.

Alþingismönnum beri gæfa til að taka á stórum verkefnum

Þá ræddi forseti Alþingis um þær breytingar sem orðið hefðu á störfum þingsins síðustu misseri og vakti sérstaka athygli á heimild til opinna nefndarfunda þar sem hagsmunaaðilar og ráðherrar gætu komið og svarað spurningum nefndarmanna. Þetta yrði þó einkum bundið við mál sem vægju þungt í þjóðmálaumræðunni.

Sturla sagði enn fremur að vindurinn sem mætti alþingismönnum þegar þeir gengu á milli Dómkirkjunnar og Alþingishússinn væri á vissan hátt táknrænn fyrir þann mótbyr sem Íslendingar mættu núna. Hann vonaðist til að alþingismönnum bæri gæfa til að taka á þeim stóru verkefnum sem biðu á næstu vikum og mánuðum. Enn fremur sagði hann hug þingmanna hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra vegna veikinda hennar og að hann hefði sent henni kveðju Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×