Innlent

Staðið við skuldbindingar í þróunarmálum

Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

,,Við stöndum við það sem við höfum tekið að okkur og það er kjarni málsins," segir Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, um fyrirhugaðar sparnaðaraðgerðir utanríkisráðuneytisins vegna yfirstandi efnahagsþrenginga.

Af þeim ríflega 2,3 milljörðum sem utanríkisráðuneytið hyggst spara á næsta ári verður skorið langmest niður í þróunarmálum eða um 1666 milljónir. Fjárframlög til Þróunarsamvinnustofnunar dragast saman um 777 milljónir. Fallið verður frá 510 milljóna aukningu í framlögum til stofnunarinnar líkt og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Gerðar verða breytingar á starfsemi sendiskrifstofa stofnunarinnar.

,,Álitshnekkir sem Ísland hefur orðið fyrir vegna ófaranna mun ekki aukast við þetta heldur þvert á móti og við munum standa við allt okkar," segir Sighvatur og bætir við að Íslandi eigi ekki kost á að efna til neinna umtalsverða nýrra skuldbindinga á næsta ári.

Aðspurður hvort að þróunarmál séu gæluverkefni segir Sighvatur svo ekki vera og bendir á að þrátt fyrir þennan niðurskurð hafi orðið umtalsverð aukning í fjárframlögum til þróunarmála á undanförnum árum. Sighvatur tekur sem dæmi að framlög til Þróunarsamvinnustofnunar séu fjórfalt hærri en þegar hann hóf störf hjá stofnunni árið 2001.

,,Þó þetta sé mikill niðurskurður vinna Íslendingar engu að síður öflugt þróunarstarf," segir Sighvatur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×