Innlent

Aðeins á eftir að auglýsa jarðarför peningamálastefnunnar

Peningamálastefna Seðlabankans er löngu dauð og það á aðeins eftir að auglýsa jarðarförina, segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Viðskiptaráðherra, menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra kalla allir eftir tafarlausri lækkun stýrivaxta.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að komast þurfi niður á fast gengi og lækka svo stýrivexti verulega. „Við getum ekki verið með meira en svona þrjú prósent vaxtamun á milli okkar og evrusvæðisins til að byrja með," segir Vilhjálmur . Það þýddi að stýrivextir yrðu að fara niður í 7-8 prósent.

Aðspurður hvort peningamálastefnan hafi beðið gjaldþrot segir Vilhjálmur: „Ja, jarðarför hennar á eftir að fara fram en hún er dáin." Hún sé búin að vera það töluvert lengi.

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla íslands, segir í Fréttablaðinu í dag að hann óttist efnahagslegt stórslys yrði bankastjórum Seðlabankans ekki vikið frá fyrir opnun markaða í dag. Og í sama blaði segir Ólafur Ísleifsson lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík að bankastjórn Seðlabankans njóti hvergi hins minnsta trausts.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×