Innlent

Dæmdar fyrir að misþyrma kynsystur sinni

Þrjá stúlkur allar innan við tvítugt voru dæmdar í Hérðasdómi Reykjavíkur í morgun fyrir hrottalega árás á jafnöldru sína. Meðal annars stungu þær sígarettu í líkama hennar og neyddu hana til að borða sígarettuna.

Tvær stúlknanna fengu sex og fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm til tveggja ára. Þriðja stúlkan hafði áður hlotið 12 mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa borið fíkniefni innvortis sem hún var tekin með í Leifsstöð, hún afplánar nú þann dóm og var ekki gerð sérstök refsing fyrir aðild sína að þessu broti.

Árásin sem er nokkuð hrottaleg átti sér stað þann 2.júlí á síðasta ári í aftursæti bifreiðar sem var í Fossvogskirkjugarði. Stúlkurnar þrjár voru þá sextán, sautján og átján ára. Þær veittust í sameiningu að fjórðu stúlkunni, sem var þá átján ára, slógu hana í andlit og líkama, hræktu á hana og helltu yfir hana gosi. Þá stungu þær logandi sígarettu í líkama hennar og neyddu hana til að borða sígarettuna.

Að þessu búnu neyddu þær hana til að afklæðast jakka og bol og kastaði ein árásarstúlknanna af sér þvagi á fötin. Þær hótuðu henni lífláti gæfi hún nöfn þeirra upp hjá lögreglu, óku henni síðan klæðalítilli að Perlunni og því næst að Suðurhlíð, þar sem ein árásarstúlknanna dró hana út úr bifreiðinni, sparkaði í nokkur skipti í líkama hennar og skipaði henni að hlaupa í burtu.

Við atlöguna hlaut fórnarlambið mar á vinstra gagnauga og glóðarauga, brunasár á hægri öxl og tungu og rispu og mar undir hægra brjósti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×