Innlent

Kompás í kvöld: Ríkislögreglustjóri laug að ríkissaksóknara

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Mynd/ Vilhelm.
Ekki verður betur séð en að Ríkislögreglustjóraembættið hafi farið með rangt mál í bréfi til Ríkissaksóknara á síðasta ári. Í Kompási í kvöld er greint frá baráttu ættingja tveggja manna um að fá aðgang að gögnum vegna rannsóknar á andláti mannanna tveggja. Ríkislögreglustjórinn hafnaði þeirri beiðni.

Ákvörðun Ríkislögreglustjórans var skotið til ríkissaksóknara. Þegar ríkissaksóknari fór fram á að fá þessi gögn í hendur til að meta málið svaraði Ríkislögreglustjóri að þau hefðu ekki fundist. Í bréfi Ríkislögreglustjórans sem dagsett er 22. ágúst 2007 segir: „Á Þjóðskjalasafni Íslands, sem geymir skjalasafn RLR, fundust engin gögn undir nöfnum hinna látnu þegar leitað var eftir þeim með símbréfi ríkislögreglustjórans 11. maí s.l."

Skýringum ríkislögreglustjóra hafnað

Vegna þessa sendi fréttaskýringaþátturinn Kompás fyrirspurn til Þjóðskjalasafns með beiðni um skýringar á þessu hvarfi gagna Rannsóknarlögreglu Ríkisins úr vörslu safnsins. Í svari frá Ólafi Ásgeirssyni þjóðskjalaverði er því vísað á bug að gögnin hafi horfið. Jafnframt segir hann að Ríkislögreglustjóra hafi verið kunngert að þau væru handbær nokkru áður en hann fullyrðir að þau finnist ekki.

Í bréfi Ólafs segir að starfsmenn Þjóðskjalasafns hafi fundið gögnin þegar ríkislögreglustjóri bað um þau. „Í kjölfarið var fulltrúi embættis Ríkislögreglustjórans látinn vita að umrædd málsskjöl væru tilbúin til afgreiðslu á skrifstofu Þjóðskjalasafns," segir í bréfi Þjóðskjalavarðar. Þegar þeirra hafði ekki verið vitjað 6. júní hafi skjölin aftur verið færð á sinn stað. „Með vísan til ofangreindrar frásagnar er ljóst að fullyrðingar um að skjöl hafi horfið úr vörslum safnsins, eiga ekki við rök að styðjast," segir að lokum í svarbréfi til Kompáss.

Upphaflega rannsakað sem sjálfsvíg



Í Kompási í kvöld er fjallað ítarlega um tilraunir ættingja ungu mannana tveggja til að fá aðgang að lögreglugögnum en þeir hafa aldrei sannfærst um að allur sannleikurinn lægi á borðinu í þessu máli. Upphaflega var málið afgreitt sem sameiginlegt sjálfsvíg tveggja vina, en vísbendingar eru um að málið hafi verið í rannsókn sem sakamál árum saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×