Innlent

Fregnir af andláti fanga stórlega ýktar

Svona leit auglýsingin í Morgunblaðinu.
Svona leit auglýsingin í Morgunblaðinu.

Undarlegt mál er komið upp í fangelsinu á Litla - Hrauni en í Morgunblaðinu í dag er sagt frá andláti Hákons Rúnars Jónssonar, refsifanga. Hákon er sagður hafa látist eftir langvarandi veikindi og er þeim sem vilja minnast hans bent á reikningingsnúmer. Þetta kom forsvarsmönnum Litla - Hrauns í opna skjöldu enda amar ekkert að Hákoni.

Þegar nánar var að gáð kom svo í ljós að reikningurinn sem gefinn var upp í auglýsingu er í eigu annars fanga, Sigurbjörns Adams Baldvinssonar. „Maður er bara kjaftstopp," segir Páll Winkel fangelsismálastjóri sem segir málið eitt það ósmekklegasta sem hann hafi séð.

Páli krossbrá

„Okkur krossbrá enda um mann að ræða sem er á okkar vegum og í fullu fjöri." Páll segir að nú sé verið að vinna í því að upplýsa málið til þess að gera mönnum agaviðurlög. „Síðan verður lögregla látin vita af þessu, það er allveg klárt mál," segir Páll og segir líklegast að ákært verði fyrir fjársvik. „En málið er á frumstigi og það getur auðvitað verið þannig að einhver annar sé að gera þeim sem á reikninginn grikk," segir Páll og bendir á að ekki sé vitað hvort Hákon eða Sigurbjörn eigi þarna hluta að máli eða eru fórnarlömb. „Við vitum það ekki ennþá."

Páll segir að agaviðurlög í málum sem þessum geti verið allt frá sviptingu aukabúnaðar, eins og tölva, yfir í einangrun. „En fyrst verðum við að upplýsa málið. En hver svo sem gerði þetta þá er þetta það ósmekklegasta sem ég hef séð."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×