Innlent

Mannslátið á Skúlagötu: Tvímenningar bera við minnisleysi

Andri Ólafsson skrifar
Íbúð hins látna hefur verið innsigluð.
Íbúð hins látna hefur verið innsigluð.

Mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna meintrar aðildar sinnar að mannsláti að Skúlagötu bera við minnisleysi í yfirheyrslum hjá lögreglu.

Mennirnir sátu báðir að sumbli með hinum látna í íbúð hans tveim dögum áður en hann fannst látinn síðastliðið mánudagskvöld.

Þeir tveir eru taldir vera þeir síðustu sem sáu hinn látna á lífi.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að maðurinn á Skúlagötu lést af völdum höfuðáverka. Ekki liggur hins vegar enn fyrir hvernig eða hvenær hann fékk þessa áverka.

Ekki er enn hægt að útiloka að annar hvor mannanna hafi veitt hinum látna hina banvænu höfuðáverka og þess vegna sitja þeir enn í gæsluvarðhaldi.

Yfirheyrslur yfir tvímenningunum ganga hins vegar frekar illa þar sem þeir muna illa eftir atburðum kvöldsins örlagaríka vegna mikillar áfengisneyslu.

Lögreglan mun því þurfa að reiða sig að miklu leiti á rannsóknargögn til þess að leiða í ljós með hvaða hætti hinn látni hlaut áverkana sem drógu hann til dauða.

Gæsluvarðhaldið yfir tvímenningunum rennur út á þriðjudag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×