Innlent

Tekjur af sölu byggingarréttar aðeins sjö prósent af áætlun

Aðalsjóður Reykjavíkurborgar skilaði 3,6 milljarða króna afgangi á fyrri helmingi ársins samkvæmt árshlutareikningi sem lagður var fram í borgarráði í dag. Það er 3,3 milljörðum króna meiri afgangur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Fagsvið borgarinnar er rekin innan fjárheimilda á fyrri helmingi ársins þrátt fyrir meiri verðbólgu. Í bókun meirihlutans um málið kemur fram að þetta sýni að borgin sé vel rekin.

Hins vegar séu neikvæðu tíðindin þau að tekjur eignasjóðs af sölu byggingarréttar eru aðeins 7 prósent af áætluðum tekjum og gatnagerðargjöld sömuleiðis langt undir áætlun. „Verðbólga umfram áætlanir og mikil lækkun gengis íslensku krónunnar hafa leitt til mikilla fjármagnsútgjalda hjá eignasjóði langt umfram fjárhagsáætlun. Þessi breyting hjá eignasjóði verður aðallega rakin til ytri áhrifavalda og útkoma eignasjóðs veldur því að A-hluti er rekinn með 395 m.kr. halla í stað tæplega 4,4 milljarða afgangs skv. fjárhagsáætlun," segir í bókuninni.

Aðgerðaáætlun kynnt í næstu viku

Meirihlutinn bendir að unnið sé að aðgerðaáætlun vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi. Markmið aðgerðaáætlunarinnar sé að móta pólitískar megináherslur í fjárhagsáætlunargerð borgarinnar fyrir næstu tvö ár, þar sem staðinn verði vörður um ábyrga fjármálastjórn samhliða traustri grunnþjónustu. „Mjög mikil vinna hefur átt sér stað á undanförnum vikum með aðkomu embættismanna og kjörinna fulltrúa frá meirihluta og minnihluta og verður kynnt í næstu viku," segir í bókun meirihlutans.

Minnihluti Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna segir að fagsvið borgarinnar sýni ábyrgð í rekstri en að stærstu frávikin í fjárhagsáætlun felist í pólitískum ákvörðunum og skorti á því að brugðist hafi við breyttu árferði með nauðsynlegum ákvörðunum. „Ýmis uppkaup eigna voru augljóslega umfram efni og Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið reka á reiðanum í fjármálastjórn borgarinnar frá því að borgarráði var fyrst greint frá því í hvað stefndi, í mars sl. Um það hafa raunar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjálfir vitnað að undanförnu á opinberum vettvangi," segir minnihlutinn.

Endurskoða þarf fjárfestingar og fjármögnun vegna kreppu 

Þá vitnar minnihlutinn til ábendingar fjármálaskrifstofu um að brýnt sé að hraða ákvörðunartöku um endurskoðun fjárfestinga og fjármögnun þeirra í ljósi breyttra tekna og aðgengis að lánsfé". Þessi alvarlega ábending eigi sér fá fordæmi en skýrist af því að viðsnúningur framkvæmda- og eignasviðs samkvæmt uppgjörinu sé neikvæður um tæpa níu milljarða. „Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir alvarlegri stöðu og erfiðum verkefnum í fjármálum og rekstri. Þau pólitísku lausatök sem því miður hafa verið staðreynd það sem af er ári duga ekki við þær aðstæður," segir minnihlutinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×