Innlent

Segir gróðahyggju vera sökudólginn

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, segir að samfélagið hafi orðið fyrir áfalli og standi á krossgötum. Sökudólgurinn er að hans mati ekki einhver einn eða nokkrir einstaklingar heldur hugmyndafræði og pólitísk stefna.

,,Græðgin og drambið, gróðahyggjan hefur verið hafin upp á stall, ímyndin um að velmegun og vöxtur gæti varað að eilífu, dansinn í kringum gullkálfinn myndi engan enda taka. Og það eru ekki bara þeir sem þar hafa verið í fararbroddi sem gjalda nú fyrir skipbrot þessara gilda. Nei, það er þjóðin öll," segir Árni í pistli á heimasíðu sinni.

Reynslan er harður húsbóndi, að mati Árna sem telur að reynslan sé nú dýrmætari en oft áður.

,,Við skulum hafa hana í farteskinu þegar við hefjum uppbyggingarstarf, við skulum öll taka höndum saman um að kasta nýfrjálshyggjunni á ,,öskuhauga sögunnar" og hefja raunverulega félagshyggju í öndvegi. Þannig mun okkur best farnast," segir Árni.

Skrif Árna er hægt að lesa hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×