Innlent

Kvíðir því að fara í fangelsi

Hæstiréttur staðfesti í dag árs fangelsi yfir Þórði Jónsteinssyni fyrir að verða tveimur að bana og stórslasa ungan dreng í umferðarslysi fyrir tæpum tveimur árum. Faðir drengsins og stúlkubarns sem lést í slysinu undrast úrræðaleysi gegn ökuníðingum og segist horfa öðrum augum á lífið.

Þórður ók bifreið sinni gáleysislega vestur Suðurlandsveg á Sandskeiði, þar sem hann ók fram úr vörubíl og framan á fólksbíl sem kom úr gagnstæðri átt. Í árekstrinum lést farþegi í bíl Þórðar tæplega þrítugur karlmaður, en í hinum bílnum var faðir með tvö börn sín, fimm ára dóttur og átta ára son.

Stúlkan beið bana og drengurinn lamaðist fyrir neðan mitti og faðir þeirra slasaðist. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms yfir Þórði og dæmdi hann í 12 mánaða fangelsi, sem ekki þótti ástæða til að skilorðsbinda. Við mat á refsingu yfir Þórði var meðal annars litið til þess að hann hafði í alls níu skipti eftir slysið verið staðinn að hraðakstri.

Hinn dæmdi Þórður Jósteinsson sagði í samtali við fréttastofu að hann væri ósáttur við dóminn sem hann telur of þungan. Hann segist jafnframt kvíða því að fara í fangelsi. Kolbrún Sævarsdóttir, sem sótti málið, sagði í samtali við fréttastofu í dag að miðað við dómafordæmi þá væri þessi dómur þyngri en það sem verið hefði og það væri ánægjulegt.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×