Lífið

Sveitabrúðkaup frumsýnd í Toronto

Kvikmynd Valdísar Óskarsdóttur, Sveitabrúðkaup, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í gærkvöldi fyrir fullu húsi hæstánægðra gesta sem klöppuðu og stöppuðu að myndinni lokinni.

Valdís var sjálf viðstödd frumsýninguna ásamt ellefu manna föruneyti leikara og framleiðenda. Þau klæddust öll íslenskum lopapeysum á sýningunni, og uppskáru mikla hrifingu áhorfenda.

Sveitabrúðkaup segir frá Ingibjörgu og Barða sem hafa ákveðið að giftast eftir þriggja ára sambúð. Þau ákveða að gifta sig í lítilli sveitakirkju klukkutíma keyrslu frá Reykjavík. Ingibjörg, Barði og brúðkaupsgestirnir - nánustu ættingjar og vinir halda af stað í tveimur litlum rútum öll spariklædd og tilvonandi brúðhjón í brúðargallanum. Brúðargjafir, kampavín og kransakaka í skottinu. En þetta fer ekki alveg eins og þau hefðu viljað óska sér.

Í helstu hlutverkum eru Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Ingvar E. Sigurðsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Egilsson, Rúnar Freyr Gíslason, Sigurður Sigurjónsson, Víkingur Kristjánsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Sveitabrúðkaup er til sýninga í Sambíóunum Álfabakka, Keflavík, Akureyri, Selfossi og Háskólabíói.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.