Lífið

Dr Gunni varar við okri

„Okursíða" Dr Gunna spikfitnar þessa dagana. Ábendingarnar um okur eru orðnar fjögur hundruð talsins, og ritaði Doktorinn í gær færslu þar sem hann dregur saman helstu niðurstöður okursíðunnar. Þær niðurstöður ættu að vera skyldulesning hjá vaxtapíndum almúga.

Í skemmstu máli er niðurstaðan að klukkubúðir (10/11 og 11/11) séu afar skaðlegar buddunni, og fólki hollast að halda sig við Bónus. Bankarnir eru sagðir „siðlausar okurstofnanir", og bent á að fyrir 20 árum hafi ónefndur vinjettuhöfundur farið í fangelsi fyrir okurlán með lægri vöxtum en það sem tíðkast í dag á yfirdrætti.

Stóru apóteka- og bakarískeðjurnar fá falleinkunn. Gunni mælir með að fólk beini viðskiptum sínum í Lyfjaver, Mosfellsbakarí og önnur smærri hverfabakarí. Kaffihús skuli forðast í lengstu lög, og að fara út að borða er eitthvað sem fólk ætti einungis að leyfa sér í bjartsýniskasti.

Bílaumboðin eru svo alls ekki í náðinni, en Gunni segir þau rekin af hundum heljar. Brimborg komi sérstaklega illa út, og fólki er bent á að fá sér hjól.

Fólk getur lesið færsluna í heild á bloggi Doktorsins, og sent honum ábendingu um okur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.