Innlent

Fundað um stöðu Íslands í tengslum við Norðurlandaráðsþing

Forsætisráðherrar norrænu ríkjanna hyggjast hittast á fundi í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Finnlandi í lok mánaðarins til þess að ræða fjármálakreppuna og sérstaklega stöðu Íslands um þessar mundir. Þetta kom fram í máli Geirs. H. Haarde forsætisráðherra á blaðamannafundi í Iðnó fyrir stundu.

Geir sagðist í dag og í gær hafa rætt við ráðamenn í heiminum um kreppuna, þar á meðal Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, og forsætisráðherra Lúxemborgar, Noregs og Finnlands. Geir sagði aðspurður að hann og Scheffer hefður rætt þá ákvörðun Breta að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum.

Þá sagði hann viðræður við Rússa um lán hafa gengið vel og ekki væri annað að heyra en að það gengi vel. Geir fór enn fremur yfir aðgerðir stjórnvalda að undanförnu og sagði forgangsatriði að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum í landinu. Þá minnstist hann á rannsókn sem stjórnvöld hygðust ráðast í á aðdraganda þess að bankarnir fóru í þrot. Ef í ljós kæmi að menn hefðu brotið lög yrðu þeir sóttir til saka.

Þá sagði hann ríkisstjórnina ætla að virkja stóran hóp úr þjóðfélaginu til þess að koma með hugmyndir að lausn efnhagsvandans til framtíðar. Almenningur myndi einnig koma að henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×