Innlent

Búa sig undir stóraukin umsvif bruggara í kreppunni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu upprætti umfangsmikla bruggstarfssemi í bakhúsi við Laugaveg í gærkvöldi. Lögreglumenn búa sig undir stóraukin umsvif bruggara þegar þrengir að efnahag almennings.

Gambralykt lagði af húsinu þegar lögreglumenn komu á vettvang þannig að ekki lék vari á hvað var á seyði. Þar innan dyra voru um það bil þúsund lítrar af gambra í einu íláti og var slökkviliðið kallað á vettvang til að eyða vökvanum. Slökkviliðsmenn settu hann á eiturefnatunnur og helltu úr þeim í sjóinn.

Tveir menn voru handteknir á vettvangi, grunaðir um framleiðsluna og er annar þeirra enn í haldi. Framleiðslan var stunduð í kjallara hússins en tvær eða þrjár íbúðir eru á efri hæðum þess. Lagt var hald á tæki og tól en eftir því sem fréttastofan kemst næst, hefur bruggstarfssemi áður verið upprætt í þessu sama húsi. Ekki liggur þó fyrir hvort sömu menn voru þar að verki.

Reynslan síðustu áratuga er sú að brugg stóreykst þegar sverfur að fólki efnahagslega og búast lögreglumenn allt eins við að enn einn hrinan sé nú að hefjast.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×