Innlent

Halli á endurskoðuðum fjárlögum 150 milljarðar

 

Halli á endurskoðuðum fjárlögum næsta árs verður um 150 milljarðar króna. Búist er við að umfangsmikill niðurskurður verður kynntur á morgun.

Forsendur fjárlagafrumvarpsins sem fjármálaráðherra kynnti í byrjun október eru löngu brostnar. Í ljósi þess hefur verið unnið endurskoðun frumvarpsins undanfarnar vikur.

Það er flókið verkefni enda er beint tekjutap ríkissjóðs af bankahruninu áætlað um 70 til 80 milljarðar króna á næsta ári og þá er einnig gert ráð fyrir að útgjöld aukist einnig gríðarlega.

Samkvæmt heimildum fréttastofu leit út um tíma fyrir að fjárlagahalli næsta árs yrði rúmir 180 milljarðar króna. Með niðurskurðaraðgerðum sem kynntar verða fljótlega er þó vonast til að ná þessari tölu niður í 150 milljarða.

Búist er við að blaðamannafundur verði haldinn jafnvel strax á morgun þar sem niðurskurðartillögurnar verða kynntar.

Í þeim tillögum er samkvæmt heimildum fréttastofu reynt eftir fremsta megni að hlífa velferðar og menntakerfinu en þess í stað verður verulega hægt á stórframkvæmdum á borð við hátæknisjúkrahús, Sundabraut og nýtt öryggisfangelsi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×