Innlent

Tengdi viðræður við Rússa ekki við herstöðvarafnot

Það er fjarri lagi að forseti Íslands hafi tengt viðræður Íslendinga við Rússa um lán við hugsanleg afnot þeirra af fyrrverandi herstöð Bandaríkjamanna á Íslandi á hádegisverðarfundi með erlendum erindrekum í síðustu viku. Þetta fullyrðir forsetaskrifstofa í samtali við fréttastofu.

Erlendir miðlar fjalla margir hverjir um fundinn og segja Ólaf Ragnar Grímsson hafa gagnrýnt Svía, Dani og Breta fyrir að hafa snúið baki við Íslendingum í þeirri efnahagskreppu sem landið glími við. Á vef norska ríkisútvarpsins var vitnað til minnisblaðs norskra stjórnvalda um fundinn þar sem fullyrt er að forsetinn hafi sagt að Íslendingar myndu hugsanlega leita sér nýrra bandamanna þar sem núverandi bandamenn hefðu svikið þjóðina. Einnig hefði hann viðrað þá hugmynd að Rússum yrði boðin aðstaða í gömlu herstöðinni á Kelfavíkurflugvelli. Eru erindrekarnir sagðir hafa verið furðu lostnir á reiðilestri forsetans gagnvart hinum gömlu vinaþjóðum.

Þær upplýsingar fengust hjá forsetaskrifstofunni í morgun að forsetinn hefði átt hádegisverðarfund með erlendum sendiherrum og fulltrúum erlendra sendiskrifstofa á föstudag og það hafi verið liður í reglulegum fundum af því tagi. Fundurinn fór fram í danska sendiráðinu. Forsetinn muni ekki tjá sig um þær umræður sem þar hafi farið fram en þó tekur forsetaskrifstofa sérstaklega fram að fréttaflutningur af fundinum sé ónákvæmur. Til dæmis sé fjarri lagi að að Ólafur Ragnar Grímsson hafi tengt viðræður Íslendinga við Rússa við fyrrverandi herstöð Bandaríkjamanna hér á landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×