Fótbolti

Del Piero neitaði að taka fyrstu spyrnuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Del Piero er hér fyrir miðju eftir að Daniele De Rossi hafði brennt af sínu víti.
Del Piero er hér fyrir miðju eftir að Daniele De Rossi hafði brennt af sínu víti. Nordic Photos / AFP

Alessandro Del Piero neitaði að taka fyrsta vítið í vítaspyrnukeppni Ítalíu og Spánar í fjórðungsúrslitum EM 2008.

Ítalska blaðið Il Giornale heldur þessu fram í dag. Roberto Donadoni landsliðsþjálfari Ítalíu bað Del Piero um að taka fyrstu spyrnuna en sá síðarnefndi neitaði og heimtaði að fá að taka fimmtu spyrnuna.

Það kom þó aldrei til þess þar sem Daniele De Rossi og Antonio Di Natale klikkuðu báðir á sínum spyrnum. Spánn vann 4-2 og komst þar með í undanúrslitin.

Svipað atvik kom upp í úrslitum HM 1994 er Roberto Baggio neitaði að taka fyrstu spyrnuna vítaspyrnukeppninnar á móti Brasilíu. Hann tók hins vegar fimmtu spyrnuna og skaut hátt yfir markið eins og löngu frægt er orðið.

Donadoni hætti sem landsliðsþjálfari Ítalíu eftir keppnina og Marcello Lippi hefur tekið við starfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×