Innlent

Hæstiréttur: Eiríkur greiði Þóru í Atlanta hálfa milljón

Eiríkur Jónsson núverandi ritstjóri Séð og heyrt.
Eiríkur Jónsson núverandi ritstjóri Séð og heyrt.

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Þóru Guðmundsdóttur gegn Eiríki Jónssyni blaðamanni, Mikael Torfasyni fyrrverandi ritstjóra Séð & heyrt og Þorsteini Svani Jónssyni sem seldi Þóru einbýlishús. Þeir tveir síðarnefndu voru sýknaðir en Eiríkur þarf að greiða Þóru 500.000 krónur í skaðabætur.

Um er að ræða grein sem birtist í Séð og heyrt undir fyrirsögninni "Þóra er blönk" og er Eiríkur höfundur greinarinnar. Snérist málið um einbýlishús sem Þóra lét byggja fyrir sig og gekk þeim sem það gerði erfiðlega að fá greitt fyrir vinnu sína.

Mikael Torfasyni þáverandi ritstjóra Séð og heyrt var einnig stefnt en hann var sýknaður.

Þorsteinn Svanur Jónsson sem seldi Þóru einbýlishúsið var einnig sýknaður. En Þorsteinn höfðaði mál gegn Þóru sem var þingfest skömmu áður en umdeild ummæli birtust í Séð og heyrt. Þau náðu sátt í því máli og málið því fellt niður.

Eftirfarandi ummæli voru hinsvegar dæmd dauð og ómerk

"Þóra er blönk"

"Þóra Guðmundsdóttir í Atlanta hefur látið byggja stærsta einbýlishús í Kópavogi í Asparhvarfi en gallin er bara sá að hún hefur ekki enn borgað krónu í því."

"Hann er að bíða eftir 120 milljónum frá einni ríkustu konu landsins. Sjálfur er hann farinn að halda að Þóra sé blönk."

"Svanur í Trompverki segist hafa ætlað að afhenda Þóru húsið fyrir ári en ekki gert það þar sem hún hafi ekki enn borgað krónu í því."

Einnig voru nokkur ummæli sem Þorsteinn Svanur lét hafa eftir sér dæmd dauð og ómerk.

"Hún hlýtur að vera orðin blönk...."

"Og hún virðist blönk því hún hefur ekki einu sinni greitt gatnagerðargjöldin, hvað þá sérpöntuðu flísarnar frá Kína sem ég pantaði og klæddi húsið með að utan."

"Nema hún sé orðin blönk...."

Ummælin "Þóra í Atlanta borgar mér ekki" sem birtust á forsíðu blaðsins eru hinsvegar ekki dæmd dauð og ómerk eins og farið var fram á.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að með hliðsjón af því að framsetning umræddar opnugreinar sýnist til þess gerð að auka sölu blaðsins, sé fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×