Innlent

Hefur ekki rætt hugmyndir um þjóðstjórn

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon MYND/GVA

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna vill lítið tjá sig um hugmyndir Davíðs Oddssonar um að hér þurfi að koma á fót þjóðstjórn. Hann segir hugmyndirnar þó undirstrika að ástandið sé alvarlegt og ekki sé skrýtið að svoleiðis komi upp. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því á forsíðu í morgun að Davíð hafi tvisvar viðrað þessa hugmynd sína undanfarið.

„Ég veit ekkert um þessa frétt í Fréttablaðinu en ef svo er þá er Davíð að leggja áherslu á orð sín um að ástandið sé mjög alvarlegt. Ég er algjörlega sammála því og hef sagt að vandi okkar sé mikill," segir Steingrímur og bendir á að þetta sé ekkert nema hugmynd.

„Ekkert slíkt hefur hinsvegar komið til umræðu en ég geri ráð fyrir að ég yrði þátttakandi í því. Ég hef sagt að við séum tilbúin ef eftir því verður leitað að leggja okkar af mörkum. Við höfum lagt fram okkar tillögur."

Aðspurður hvort hann sér hrifinn af hugmyndinni um þjóðstjórn segir Steingrímur: „Ég tjái mig ekki um það en ástandið er alvarlegt og það er ekkert skrýtið að svoleiðis hugmyndir komi upp."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×