Innlent

„Löggæslan er fyrir fólkið í landinu“

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Gunnar V. Andrésson

„Hugsunin með stofnun þessa embættis var fyrst og fremst sú að þetta yrði einhvers konar stjórnsýslu- eða samræmingarstofnun fyrir embættin á landinu. Sú hugsun er að mínu viti í takt við það sem hefur verið að gerast á Norðurlöndunum, einkanlega Danmörku sem er að hverfa frá miðlægu skipulagi.

En fyrst og fremst þurfum við að móta sjálf okkar eigin löggæslustefnu í takt við vilja almennings um leið og horft er til þess sem vel er gert annars staðar," segir Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, inntur eftir hugmyndum sínum um embætti ríkislögreglustjóra. Lúðvík sagði í utandagskrárumræðu á Alþingi í gær að hann teldi rétt að leggja embættið niður og verja fénu fremur í að styrkja grenndarlöggæslu.

Mörg verkefni ættu heima annars staðar

Lúðvík segir mörg verkefna ríkislögreglustjóra eiga eins vel heima hjá öðrum embættum þeim til styrkingar og eflingar. Nefnir hann þar rekstur sérsveitar og umsjón bifreiða, alþjóðadeildina, fjarskiptamiðstöðina, greiningardeildina o.fl. „Það sem á að vera eftir er samræmingar- og eftirlitshlutverkið. Það gengur ekki að lítil þjóð skuli vera með á 500 metra radíus tvö stærstu lögregluembætti landsins. Hvaða vit er í því? Annað kostar þrjá milljarða og hitt tvo milljarða.

Þegar menn skapa svona stöðu myndast ákveðinn núningur og orka fer í það að deila um hvaða verkefni eiga að vera hvar o.s.frv. í stað þess að einbeita sér að þeim verkefnum sem lögreglan á að vinna," segir Lúðvík enn fremur.

Hann vill að verkefnum ríkislögreglustjóra verði skipt, meðal annars milli lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum og fleiri embætta. „Réttlætingin fyrir stofnun [ríkislögreglustjóra]embættisins var meðal annars sú að það væru svo mörg lítil embætti. Nú hefur það breyst. Í stað þess að vera 26 embætti eins og var eru þau orðin 15 og þar af tvö mjög stór.

Fólk vill sinn Sigga

Ég held að fjármunir sem fara til löggæslunnar myndu nýtast mun betur ef við fækkuðum um eina af þessum stóru stofnunum. Lögreglumönnum hefur lítið sem ekkert fjölgað í landinu nema hjá ríkislögreglustjóra og þeir sinna ekki þessari almennu grenndarlöggæslu sem fólk er að leita eftir. Fólk vill hafa sinn „Sigga" í nágrenninu, mann með persónulega þekkingu á samfélaginu, en ekki eitthvert miðlægt embætti langt í burtu, sem fólk hefur á tilfinningunni að kunni að vera að berjast við einhvern ímyndaðan óvin," segir Lúðvík og vísar þar til mikilvægis persónulegra tengsla borgaranna við lögreglumenn, sem þeir kannast við og treysta.

Hann bendir á að fjöldi yfirmanna í lögreglunni hafi verið gagnrýndur og tvö stór embætti á litlu svæði geri yfirmannabygginguna enn þyngri í vöfum og dýrari sem því nemi. Í breskri löggæsluframkvæmd tíðkist það t.d. að gera út lögreglumenn sem séu á rölti meðal fólksins. Þetta vanti tilfinnanlega hér.

Ímyndaður óvinur

„Mér hefur fundist stefnan í löggæslumálum markast svolítið af baráttu við ímyndaðan óvin þar sem orðin hnattvæðing, samruni við ESB og 11. september 2001 eru mótorarnir - þó ekki megi heldur gera lítið úr breytingum í heiminum. Það er því augljóst í mínum huga að nýta má fjármunina sem renna til löggæslumála miklu betur.

Löggæslustörfin eru mikilvæg störf. Það er mikil óánægja á Suðurnesjunum með það hvað grenndarlöggæsla er lítil þar. Við verðum að muna að löggæslan er fyrir fólkið í landinu, það verður að vera útgangspunkturinn í vinnu við mótun löggæslustefnu," segir Lúðvík að lokum. Hann segist hafa fengið töluverð viðbrögð við málflutningi sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×