Innlent

Bannað að selja kveikjara án barnalæsingar

Viðskiptaráðuneytið hefur birt nýja reglugerð um bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu kveikjara án barnalæsingar og kveikjara með óhefðbundið útlit sem höfða sérstaklega til barna.

Það er neytendastofa sem vekur athygli á þessu í fréttatilkynningu. Þar segir ennfremur:

„Tilgangur bannsins er að fækka slysum af völdum kveikjara. Evrópsk vöruöryggisyfirvöld hafa lengi unnið að því að auka öryggi kveikjara og um leið öryggi neytenda. Talið er að á milli 1500- 1900 einstaklingar slasist og 30-40 einstaklingar láti lífið árlega í ríkjum evrópska efnahagssvæðisins af völdum fikts og leiks barna að kveikjurum. Í Bandaríkjunum, þar sem samskonar bann hefur verið í gildi síðan árið 1994, hafa brunum sem rekja má til kveikjara sem börn voru að fikta með fækkað um 60% eftir að löggjöf um barnalæsingar á kveikjurum tók gildi.

Heimilt er að kveikjarar sem markaðssettir voru fyrir þann 11. mars 2007 séu áfram á markaði og aðgengilegir neytendum til 11. maí 2009. Þrátt fyrir að frestur sé til 11. maí á næsta ári er rétt að taka það fram að æskilegt er að vörur af þessu tagi hverfi af markaðinum sem allra fyrst.

Neytendastofa mun eftir 11. maí 2009 hefja markaðseftirlit til að kanna hvort kveikjarar án barnalæsingar og kveikjarar með óhefðbundið útlit hafi verið fjarlægðir af markaðinum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×