Innlent

Tíðinda að vænta í skattlagningu á eldsneyti á næstunni

MYND/Pjetur

Tíðinda er að vænta í tillögum nefndar fjármálaráðherra sem skipuð var til þess að endurskoða skattlagningu hins opinbera á olíu og bensín. Þetta kom fram í máli Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Það var Samúel Örn Erlingsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, sem spurði ráðherra hvort hann hygðist beita sér fyrir því að olíugjald á díselolíu yrði lækkað þannig að olían yrði aftur ódýrari en bensín. Benti hann á að þegar lög um olíugjald hefðu verið sett fyrir fjórum árum hefði meðal annars verið horft til þess að dísilbílar væru umhverfisvænni en bensínbílar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sagði umhverfisráðuneytið ekki sýsla með skatta og gjöld en benti á að nefnd undir forystu fjármálaráðuneytisins hefði verið að endurskoða skattlagningu og gjaldtöku af eldsneyti. Hún ætti von á að niðurstöður nefndarinnar litu dagsins ljós innan nokkurra vikna og þar myndi draga til tíðinda.

Alltof margir einkabílar á Íslandi

Þá benti umhverfisráðherra á að síðar á þessu ári yrði tekin til umræðu aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Að sjálfsögðu væri skattlagning, eins og hagrænir hvatar eða grænir skattar, umræða sem þyrfti að taka.

Sagði ráðherra mjög mikilvægt fyrir stjórnvöld að setja sér skýr markmið um að draga úr mengun. Í umræðum um aðgerðaáætlunina reyndi á forgangsröðunina í samfélaginu. Þetta snerist ekki bara um að lækka skatta á bíla heldur einnig að minnka mengun bíla og fækka þeim. Það yrði þegar á reyndi svolítið sársaukafullt að horfast í augu við það að það væru „alltof, alltof, alltof," margir einkabílar á Íslandi eins og ráðherra orðaði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×