Innlent

Útilokar ekki formannsframboð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi félagsmálaráðherra, útilokar ekki framboð til formanns á flokksþingi sem fram fer í janúar. Hann segir þó af og frá að einhver ákvörðun hafi verið tekin um það. „Maður á aldrei að útiloka neitt, en það er ekki uppi á borðinu á þessari stundu allavega," segir Magnús. Hann býst við því að janúar verði mjög spennandi. Frambjóðendur muni vilja kynna sig og hitta flokksmenn út um allt land. Svo verði heilmikil vinna í flokknum við að móta stefnuna.

Spennandi janúar

Magnús segist ekki vera búinn að móta sér afstöðu varðandi aðild að Evrópusambandinu. „Ég hef nú verið í þeim hópi sem vill kafa ofan í málið. En ég hef ekki tekið beint afstöðu til þess að ganga inn að öðru leyti en því að við þurfum að fá nýjan gjaldmiðil og það þarf að finna einhverja leið út úr því," segir Magnús. Hann segist hafa kynnt sér lítillega hugmyndir Ársæls Valfells og Heiðars Guðjónssonar um einhliða upptöku evru. Það sé þess virði að kanna hvort hægt verði að fara þá leið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×