Erlent

Reiknað með að næsti Bandaríkjaforseti loki Guantanamo

Líklegt er talið að næsti Bandaríkjaforseti muni loka fangelsinu við Guantanamo-flóa á Kúbu. Mannréttindafrömuðir Sameinuðu þjóðanna velta því fyrir sér hvað verði um fangana 255 sem þar eru.

Báðir frambjóðendurnir hafa látið í veðri vaka að tímabært sé að loka fangelsinu illræmda sem eitt sinn hýsti 600 fanga en heldur nú 255 grunuðum hryðjuverkamönnum fögnum.

Martin Scheinin hjá mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna telur að verði fangelsinu lokað fá þeir fangar frelsi sem ekki þyki stafa raunveruleg ógn af. Í málum annarra þurfi að rétta fyrir bandarískum dómstólum en svo sé að öllum líkindum um þriðja hópinn að ræða. Það séu fangar sem ekki þyki undir neinum kringumstæðum óhætt að gefa frelsi.

Scheinin telur að nýr forseti muni þurfa að láta setja lög sem geri Bandaríkjamönnum kleift að halda þessum hópi föngnum áfram um óákveðinn tíma. Þessari lausn segist hann þó ekki geta mælt með enda séu lögin sem heimili vistun manna án dóms í Guantanamo meingölluð og ný lög í sama anda myndu vekja mikinn úlfaþyt meðal mannréttindahreyfinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×