Innlent

Reynt að lágmarka tjón almennings

„Allar þessar málalyktir hvað varðar Kaupþing eru gríðarleg vonbrigði," sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra á blaðamannafundi sem hann og Geir Haarde héldu í Iðnó í dag. Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Kaupþings í nótt. Björgvin sagði að fyrir fáeinum dögum hefði allt útlit verið fyrir það að Kaupþing myndi komast yfir hamfarirnar sem dynji á heiminum. Hins vegar hefði allt gengið af göflunum í Bretlandi í gær og áhlaup verið gert á íslenskt viðskiptalíf. Þá sagði Björgvin að allt kapp hefði verið lagt á að vinda ofan af misskilningi sem hefði komið upp í gær á milli breskra og íslenskra stjórnvalda um að íslensk stjórnvöld ætluðu ekki að standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum almenningi.

„Við erum að fara eins ítarlega yfir það hvernig megi lágmarka það tjón sem almenningur verði fyrir í þeim hamförum sem ganga yfir heiminn," sagði Björgvin ennfremur. Hann sagði þá hugmynd vera mjög mikilvæga sem forsætisráðherra hefði kynnt um að frysta greiðslur á myntkörfulánum hjá þeim bönkum sem enn hefðu ekki verið ríkisvæddir. Þá ítrekaði hann jafnframt að staða peningamarkaðssjóðanna yrði skoðaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×