Innlent

Sakar Seðlabankann um að tala niður fasteignaverð

MYND/Pjetur

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingarmálaráðherra telur að óskynsamlegt hafi verið að tala niður fasteignamarkaðinn eins og Seðlabankinn hafi gert í spá sinni nýverið. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.

Birkir benti á að hann hefði ítrekað kallað eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna fasteignamarkaðarins. Þar ríkti nú algjör stöðnun og aldrei hefðu eins fáir kaupsamningar verið þinglýstir. Fasteignasalar væru verkefnalausir og fregnir hefðu borist af verktökum í erfiðleikum vegna stöðunnar á markaði.

Benti Birkir á að félagsmálaráðherra hefði í haust sagt að algert neyðarástand ríkti á markaðnum en ekkert hefði verið gert. Spurði hann hvað ríkisstjórnin ætaði að gera. Um væri að ræða grundvallarmannréttindi fólks, að koma sér þaki yfir höfuðið.

Jóhanna Sigurðardóttir sagðist hafa áhyggjur af stöðu íbúðakaupenda eins og staðan væri nú en það væri ekki verið að gera ungu fólki greiða með því að hvetja það til fasteignakaupa þegar vextir væru háir og kjörin með þeim hætti sem raun bæri vitni. Sagðist hún geta fullvissað þingmanninn um að eins fljótt og auðið væri yrði farið í aðgerðir en tímasetningin skipti þar miklu máli.

Þá sagði ráðherra að það myndi fara illa fyrir mörgum ef spá Seðlabankans um 30 prósenta lækkun fasteignaverðs gengi eftir. Það hefði að hennar mati verið mjög óskynsamlegt af Seðlabankanum að tala niður fasteignaverðið með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×