Innlent

Sekt Árdegis vegna samkeppnisbrota staðfest

MYND/Pjetur

Hæstiréttur hefur staðfest 65 milljóna króna stjórnvaldssekt á hendur Árdegi fyrir brot á samkeppnislögum.

Samkeppniseftirlitið komst að því í júní 2006 að Skífan, forveri Árdegis, hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að gera samninga við Hagkaup um sölu á hljómdiskum og tölvuleikjum, annars vegar á árinu 2003 og hins vegar á árinu 2004. Samingarnir hefðu falið í sér einkakaup og samkeppnishamlandi afslætti. Með samningunum hefðu keppinautar Skífunnar verið nánast útilokaðir frá viðskiptum við Hagkaup sem er stór seljandi á m.a. hljómdiskum. Var um ítrekunarbrot að ræða hjá Skífunni að mati Samkeppniseftirlitsins og var félagið því sektað um 65 milljónir króna.

Þeirri ákvörðun áfrýjaði félagið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Þá leitaði Árdegi til dómstóla og hélt því meðal annars fram að brotavilja hefði skort. Við ákvörðun sektar var litið til þess að brot Skífunnar voru umfangsmikil, alvarleg og stóðu lengi. Þá yrði ekki framhjá því litið að félaginu hefði áður verið gerð sekt vegna sambærilegra brota og yrði ekki séð að það hefði haft áhrif til varnaðar frekari brotum félagsins. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu Samkeppniseftirlitsins því staðfest.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×