Lífið

Plata Garðars kemur út samtímis á Íslandi og í Bretlandi

Plata Garðars Thórs Cortes, When You Say You Love Me, kemur út í Bretlandi og á Íslandi mánudaginn 30. júní. Þetta er önnur platan sem Garðar gefur út í Bretlandi, en sú þriðja á Íslandi og er henni ætlað að fylgja á eftir plötunni Cortes sem vann sér inn tilnefningu til Bresku tónlistarverðlaunanna en þau fóru fram í London í maí sl.

Sú plata náði einnig fyrsta sætinu á Breska klassíska vinsældalistanum og sat þar í þrjár vikur. Á nýju plötunni má finna óperuaríurnar M'appari tutt'amor, Com e Gentil og Pourquoi Me Reveiller og Che Gelida Manina. Einnig er að finna á plötunni útgáfur Garðars af þekktum lögum eins og Lady, She og Sofðu unga ástin mín.

Há-tískuhúsið Ermengildo Zegna hefur ráðið Garðar Thór sem sendiherra tískuhússins. Þar bætist Garðar í hóp manna eins og Sir Michael Caine, Kenneth Branagh, Ewan McGregor og Adrian Brody. Tískuhúsið hélt mikla veislu í síðustu viku til heiðurs Garðari og meðal gesta voru Frú Dorrit Moussaieff, Giancarlo Aragona sendiherra Ítalía á Bretlandi og Harvey Goldsmith sem meðal annars skipulagði Live Aid tónleikana með Bob Geldoff og kveðjutónleikaröð Placido Domingo.

"Þetta hefur verið ár mikilla ævintýra fyrir mig og ég er voðalega þakklátur fyrir það fyrsta að fá að vera að taka upp og gefa út tónlist sem mér þykir vænt um. Þó er ég sérstaklega þakklátur fyrir það hvað þessu er vel tekið bæði heima á Íslandi og annarsstaðar" sagði Garðar en um helgina skellti söngvarinn sér á tónleika með einum af uppáhalds söngvaranum sínum Bon Jovi á Twickenham Stadium í London.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.