Innlent

16 ára kosningaaldur

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Jafnaðarmannaflokkurinn í Danmörku hefur lagt til að kosningaaldur þar í landi verði lækkaður niður í 16 ár. Þingmenn Vinstri grænna lögðu til fyrir ári síðan að kosningaaldur hér á landi yrði lækkaður úr 18 árum í 16 ár.

Jafnaðarmenn í Danmörku segja að lækkunin komi til með að hvetja ungt fólk til að taka þátt í stjórnmálum, axla ábyrgð og hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Víða í Evrópu miðast kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum við 16 ára aldur.

Kosningaaldri hér á landi var seinast breytt árið 1984 þegar hann var lækkaður úr 20 árum í 18.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Hlynur Hallsson lögðu fyrir ári síðan fram þingsályktunartillögu um að kosningaaldur yrði færður úr 18 árum í 16 ár.

,,Við vitum að ungt fólk hefur gríðarlegan áhuga á pólitík og við skynjum það til að mynda vel í okkar flokki. Í framhaldsskólum fer fram mikil umræða og víða eru starfandi pólitísk félög og málfundarfélög," segir Kolbrún og bætir að innganga í flesta stjórnmálaflokka miðast við 16 ára aldur og því eðlilegt að sami hópur hafi kosningarrétt.

Kolbrún telur að 16 ára kosningarréttur muni hafa þroskandi áhrif á ungt fólk og það verði um leið að ábyrgum þátttakendum í samfélaginu.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að málið hafi ekki verið til athugunar hjá sér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×