Innlent

Framkvæmdastjórn ESB fagnar samkomulagi við Íslendinga

MYND/AP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fagnar því að samkomulag hafi náðst við íslensk stjórnvöld varðandi greiðslur til handa þeim sem áttu fjármuni inni á Icesave-reikningum Landsbankans.

Þetta sagði talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, Amelia Torres, á blaðamannafundi skömmu fyrir hádegi. Eins og fram hefur komið í fréttum kveður samkomulagið á um að Íslendingar viðurkenna að þeim beri að tryggja innistæður að hámarki um 21 þúsund evrur á hverjum reikningi í samræmi við lög um tryggingasjóð innistæðueigenda.

Torres sagði að með þessu myndu stjórnvöld hér á landi vinna í samræmi við reglur Evrópusambandsins um tryggingu innistæðna. Enn fremur að samkomulagið ætti að greiða fyrir því að Íslendingar fengju þá fjárhagsaðstoð sem þeir þyrftu. Fyrr í dag hafði talsmaður breska fjármálaráðuneytisins fagnað niðurstöðu viðræðna stjórnvalda og fulltrúa ríkja Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×