Innlent

Bretar tryggja eðlileg og venjuleg viðskipti milli landanna

Geir H. Haarde forsætisráðherra ræddi við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, fyrr í dag og segir að Bretar muni gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að eðlileg og venjuleg viðskipti geti farið fram á milli landanna.

Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætisráðherra í Iðnó í dag. Geir fór yfir stöðuna eins og hún blasti við í dag. Kaupþing hefði lent í sömu stöðu og Landsbankinn og Glitnir og hefði því verið tekinn yfir af Fjármálareftirlitinu. Það væri vonbrigði að það skyldi atvikast á þennan hátt en úr því sem komið væri væri ekki annað um að ræða en að vinna úr stöðunni.

Geir lagði áherslu á að fólk héldi ró sinni því greiðslukerfi landsmanna virkaði og innistæður væru tryggar. Beindi hann því til fólks að taka ekki háar upphæðir úr bönkum því það gerði málin erfiðari viðfangs auk þess sem hætta gæti falist í því fyrir fólk að geyma mikið af fé heima.

Kanna möguleika á að frysta greiðslur af gengistryggðum lánum

Forsætisráðherra sagði að miklar breytingar yrðu á bankakerfinu og efnahagslífinu og menn yrðu að sýna stillingu því þetta tæki einhverja daga. Ríkisstjórnin myndi kanna hvort unn væri að beina tilmælum til bankanna, sem væru ekki komnir að fullu í eigu ríkisins, að frysta greiðslur af gengistryggðum íbúðalánum þar til gjaldeyrismál væru komin á hreint. Nánari útfærsla yrði kynnt síðar.

Þá sagði Geir að íslensk stjórnvöld hefðu verið mjög óánægð með það að bresk yfirvöld skyldu beita Íslendinga ákvæðum í lögum gegn hryðjuverkastarfsemi. Slík aðgerð væri óvinveitt íslenskum stjórnvöldum. Íslendingar hefðu litið á Breta sem okkar vinaþjóð og við teldum okkur ekki eiga þetta skilið.

Forsætisráðherra var spurður af því hvort stjórnvöld íhuguðu að verjast með lagalögum vörnum eða fara fram á skaðabætur. Geir svaraði spurningunni ekki beint og sagði að það væri ekki við hæfi að bresk stjórnvöld beittu slíkri löggjöf þrátt fyrir að það væri ágreiningur á milli landanna.

Sagðist Geir hafa rætt við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, í dag og hann hefði fullvissað sig um að það yrðu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að eðlileg viðskipti gætu farið fram á milli landanna. Fékk Geir staðfestingu á þessum orðum bréfleiðis á meðan á fundinum stóð. Sagði Geir að með þessu væri tryggt að venjulegir Íslendingar yrðu ekki fyrir barðinu á þessum óvenjulegum aðstæðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×