Íslenski boltinn

Stolpa ekki aftur til Grindavíkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomasz Stolpa í leik með Grindavík í sumar.
Tomasz Stolpa í leik með Grindavík í sumar. Mynd/Stefán

Mikil óvissa ríkir um framhald sex af þeim sjö erlendu leikmönnum sem léku með Grindavík í sumar. Þó er ljóst að Tomasz Stolpa mun ekki koma aftur til félagsins, eins og staðan er í dag.

Þetta staðfesti Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Vísi. Hann taldi enn fremur ólíklegt að þeir Gilles Mbang Ondo og Zankarlo Simunic, markvörður, myndu snúa aftur til félagsins í vor.

Varnarmennirnir Zoran Stamenic og Marinko Skaricic eru báðir samningsbundnir Grindvík til loka næsta tímabils en Milan Stefán sagði að í samningum þeirra væri uppsagnarákvæði sem bæði leikmönnum og félaginu væri heimilt að nýta sér í lok tímabilsins.

Þá er Aljosa Gluhovic þegar búinn að ganga frá sínum málum í Grindavík og er hann haldinn til síns heima í Slóveníu.

„Hann ætlar að reyna að komast að hjá úrvalsdeildarliði í Slóveníu í vetur en ef það gengur ekki ætlar hann að athuga það að koma aftur næsta sumar," sagði Milan Stefán.

Sjöundi erlendi leikmaðurinn, Scott Ramsay, er samningsbundinn Grindavík til ársins 2010.

Milan Stefán sagði enn fremur að félagið ætlaði að leggja ofuráherslu á að fá íslenska leikmenn til félagsins við sig í vetur, fremur en erlenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×