Innlent

Hestamenn óttast þriðjungs hækkun á heyi

Hestamenn óttast að hey muni hækka um allt að þriðjung eftir tæplega tuttugu prósenta hækkun síðasta vetur. Þá bendir ýmislegt til að skortur geti orðið á heyi.

Þetta gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir hestamennskuna þegar fram í sækir, að sögn kunnugra,því hætt er við að hestamenn fari að fækka við sig eða hætta alveg í greininni, einkum þeir efnaminni.

Raunar er þegar farið að bera á að þeir séu farnir að fækka við sig, að sögn kunnugra. Stórir heybaggar eða rúllur, sem kostuðu 4,500 krónur í fyrravetur, hækkuðu upp í 5,500 síðasta vetur og er búist við talsvert meiri hækkun næsta vetur, eða að bagginn fari upp í 7 þúsund krónur.

Þetta hefur mikil áhrif, því það lætur nærri að heykostnaður sé nú þegar orðin helmingur af breytilegum kostnaði við að halda hest. Hinn helmingurinn er svo spænir, járningar, saltsteinar og dýralæknakostnaður, en þeir liðir fara líka hækkandi.

Við þetta bætist svo að hestamenn óttast að heyskortur geti orið í vetur, því margir bændur spöruðu við sig áburðarkaup í vor vegna mikilla hækkana á áburði og verða því síður aflögufærir með hey en ella.

Áburðurinn hefur hækkað um háttí 70 prósent frá því í fyrra, olíuverð á dráttarvélarnar um 50 prósent og rúllubaggaplastið utan um heyið um hátt í 30 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×