Innlent

Orð Kjartans stangast á

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

Orð Kjartans Magnússonar, stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, varðandi Bitruvirkjun stangast á. Kjartan sagði í maí að áformum um virkjun Bitru yrði ekki haldið áfram á kjörtímabilinu. Í dag segir hann að alls ekki hafi verið fallið frá hugmyndum um Bitruvirkjun og stjórn Orkuveitunnar hafi ákveðið að doka við.

,,Ekki hefur verið hætt við Bitruvirkjun heldur undirbúningi hætt meðan málið er skoðað betur," segir Kjartan í Fréttablaðinu í dag.

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti einróma á fundi sínum 20. maí síðastliðnum tillögu um að hætta undirbúningi við Bitruvirkjun. Sama dag sagði Kjartan í fréttum Ríkisútvarpsins að málinu yrði ekki haldið áfram á kjörtímabilinu.

,,Stjórn Orkuveitunnar hefur auðvitað ekki vald til að slá þessa framkvæmd af um alla framtíð en ég tel jafnframt nokkuð ljóst að það verður ekki haldið áfram með þetta mál eins og það er vaxið á kjörtímabilinu. Hvað síðar kann að gerast er auðvitað ekki í okkar höndum," sagði Kjartan jafnframt í fréttum Rúv.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, fagnaði ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar á fundi borgarstjórnar 20. maí og sagði að virkjunin hefði verið slegin út af borðinu. Hann óskaði borgarbúum og landsmönnum öllum til hamingju með ákvörðunina.

Ekki náðist í Kjartan við vinnslu þessarar fréttar.

- Segir Kjartan tvístígandi


Tengdar fréttir

Skipulagsstofnun svarar fyrir sig

Skipulagsstofnun hefur svarað gagnrýni á hendur stofnuninni sem sett hefur verið fram í kjölfarið á áliti hennar á Bitruvirkjun. Samorka hefur meðal annars haldið því fram að Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir valdsvið sitt í málinu.

Virkjanaáform í uppnámi?

Sveitarstjórn Ölfuss ætlar að ákveða á fimmtudag hvort aðalskipulag sveitarfélagsins verði endurskoðað. Slík endurskoðun myndi setja áform um Hverahlíðarvirkjun og stækkun Hellisheiðarvirkjunar í uppnám, því þá verður ekki hægt að virkja á svæðinu næstu tvö árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×