Innlent

Óskar vill að Orkuveitan endurskoði ákvörðun um Bitruvirkjun

Óskar Bergsson.
Óskar Bergsson.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði á fundi borgarráðs í dag tillögu um að Orkuveita Reykjavíkur endurskoði ákvörðun sína um að hætta við Bitruvirkjun. Tillögunni var frestað.

„Ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 20. maí s.l. þar sem ákveðið var að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og fresta öllum frekari framkvæmdum á svæðinu hefur sætt harðri gagnrýni," segir í tillögu Óskars. „Margir hafa orðið til þess að velta fyrir sér réttmæti ákvörðunarinnar sem tekin var innan sólarhrings frá því að álit Skipulagsstofnunar var kynnt."

Óskar bendir meðal annars á yfirlýsingu frá Samorku þar sem því er haldið fram að Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. „Skipulagsstofnun hefur brugðist við þeirri yfirlýsingu með því að staðfesta að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að leggjast gegn eða hafna byggingu Bitruvirkjunar. Í ljósi þess að álit Skipulagsstofnunar var ekki bindandi, harðra viðbragða hagsmunaaðila, mikils áfallins kostnaðar og nýrrar hagskýrslu ASÍ um verulegan samdrátt framundan í íslensku efnahags- og atvinnulífi, samþykkir borgarráð að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að endurskoða ákvörðun sína frá 20. maí," segir í tilkynningunni.

„Það eru eindregin tilmæli borgarráðs Reykjavíkur að stjórn fyrirtækisins endurskoði fyrri afstöðu sína í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið eftir að ákvörðun var tekin," segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×