Innlent

Hrun blasir við í fjármálum sveitarfélaga

MYND/Vilhelm

Rekstarhalli sveitarfélaganna verður 4,3 milljarðar króna, eða þrjú prósent af tekjum, í ár og 30 milljarðar króna á næsta ári sem svarar til um fimmtungs af tekjum þeirra. Þetta kom fram í máli Karl Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu þeirra í dag.

„Þessar tölur um stöðu og horfur í fjármálum sveitarfélaga tákna auðvitað ekkert annað en hrun þegar á heildina er litið," sagði Karl. Hann býst við að afkoma sveitarfélaganna verði lítið eitt skárri 2010 og lagist ögn frekar 2011. Jafnvægi verði ekki náð fyrir en 2012 eftir því sem haft er eftir honum í tilkynningu frá sambandinu.

Karl velti upp ýmsum möguleikum til að bregðast við vandanum en dró ekki dul á að einhver sveitarfélög, sem eiga afkomu sína að miklu leyti undir Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og eru jafnframt í fjárhagserfiðleikum, myndu trúlega lenda í forsjá eftirlitsnefndar og ráðuneytis á næsta ári. Önnur muni þrauka en örfá „fara létt í gegnum kreppuna".

Meðal viðbragða sem Karl nefndi var að hækka hámarksútvar, fasteignagjöld og gjaldskrár og innheimta gjöld þar sem þjónusta nú er án endurgjalds og að fá aukinn hlut í heildarskatttekjum hins opinbera. Þá þyrfti að draga úr útgjöldum með því til dæmis að draga úr launahækkunum eins og kostur er, endurskoða starfsemina og velta fyrir sér hvort unnt væri að fjölga nemendum í bekkjardeildum og sameina eða leggja niður stofnanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×