Innlent

Ísland byrji að undirbúa Evrópusambandsaðild

Tveir helstu ráðgjafar eldri ríkisstjórna á Íslandi vilja að þegar verði byrjað að undirbúa umsókn um aðild að Evrópusambandinu til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og leysa vanda íslenskra banka og fjármálastofnana.

Einar Benediktsson, einn reyndasti sendiherra þjóðarinnar, og Jónas H. Haralz, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans og efnahagsráðgjafi fjölmargra íslenskra ríkisstjórna, hafa skrifað grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag undir titilinum "Öryggi í hnattvæddum heimi."

Þar lýsa þeir skoðun sinni að þegar ætti að byrja að undirbúa umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Miklu skipti að tengsl Íslands við umheiminn hvíli á traustri stöðu í alþjóðlegu umhverfi viðskipta- og fjármála, ekki síður en stjórnmála. Það er mat þeirra Einars og Jónasar að eins og saknir standi nú verði slíkt ekki tryggt utan Evrópusambandsins.

Með því að hefja undirbúning umsóknar væri gefinn til kynna fullur vilji til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og þannig greitt fyrir úrlausn þess bráða vanda sem fjármálastofnanir landsins eigi við að etja.

Nú sé svo komið að spyrja verði hvort nauðsyn beri til þess vegna öryggis landsins að leita aðildar að myntbandalagi sem geti gefið peningamálum þá festu sem atvinnulífið þurfi á að halda.

Í greininni segir að þó slík ákvörðun væri efnahagslegs eðlis væri hún í fullu samræmi og eðlilegu samhengi við ný viðhorf í varnarmálum eftir brottför varnarliðs Bandaríkjamanna. Áhugi Evrópuþjóða á þátttöku í eftirlitsflugi með herþotum við Ísland bendi varla til annars en að umhverfi Íslands tengist varnarhagsmunum þeirra. Því hljóti stefna Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum að vera áhuga- og hagsmunamál fyrir Ísland.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×