Íslenski boltinn

Get ekki sett hvern sem er inn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Scott Ramsay verður í banni í leik Grindavíkur og Keflavíkur.
Scott Ramsay verður í banni í leik Grindavíkur og Keflavíkur. Mynd/Vilhelm

Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur, á í miklum vandræðum með að manna lið sitt fyrir næsta leik liðsins í Landsbankadeild karla.

Þrír leikmenn liðsins fengu að líta rauða spjaldið í leik Grindavíkur og Fram um síðustu helgi og voru í gær allir dæmdir í eins leiks bann. Það eru varnarmennirnir Marinko Skaricic og Zoran Stamenic auk sóknarmannsins Scott Ramsay.

„Við erum með mjög lítinn hóp og ég get ekki sett hvaða leikmann sem er inn í staðinn fyrir þá sem verða í banni," sagði Milan Stefán í samtali við Vísi. „Við munum því spila æfingaleik við Reyni frá Sandgerði á morgun til að skoða hverjir myndu passa best inn í liðið fyrir leikinn gegn Keflavík."

Grindavík mætir Keflavík á sunnudagskvöldið en síðarnefnda liðið hefur unnið fimm af sex leikjum sínum til þessa og skorað flest mörk allra liða í deildinni, átján talsins.

„Það er ljóst að margir ungir leikmenn koma til með að spila leikinn gegn Keflavík. Alls er ég með 7-8 leikmenn sem eru nýkomnir úr 2. flokki sem hafa verið að byrja eða verið á bekknum í vor. En við ætlum að leggja okkur alla fram og ég er viss um að þetta muni efla strákana."

„Stuðningsmennirnir hafa einnig verið okkar tólfti maður og ég vona að þeir verði duglegir að fjölmenna á völlinn. Þetta verður erfitt enda er Keflavík með hörkumannskap og með átján leikmenn sem gætu allir spilað í byrjunarliðinu."

Sjálfur fékk Milan Stefán að líta rauða spjaldið að leiknum loknum og verður því einnig í banni í leiknum, sem og Ingvar Guðjónsson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×