Erlent

Bush náðar fjórtán einstaklinga

George W. Bush fráfarandi Bandaríkjaforseti ákvað í dag að náða fjórtán einstaklinga og stytta fangelsisdóma yfir tveimur öðrum. Náðanir Bush eru sagðar koma nokkuð á óvart en hann hefur verið óvenju spar á náðanir miðað við fyrirrennara sína.

Á þeim átta árum sem Bush hefur gegnt embætti forseta hefur hann náðað 171 einstaklinga sem gerir hann ekki einusinni að hálfdrættingi ef litið er til fjölda náðanna Bills Clintons og Ronalds Reagan sem báðir sátu einnig í Hvíta húsinu í átta ár eða tvö kjörtímabil.

Réttur forseta til náðunar er stjórnarskrárbundinn og ekki er hægt að snúa þeirri ákvörðun við. AP fréttastofan segir frá þessu en ekki kemur fram hverjir voru náðaðir í þetta skiptið eða hvers eðlis glæpir þeirra voru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×