Innlent

Voðaskotið í Rússlandi: Líklega réttað yfir stúlkunni hér á landi

Frá Rússlandi
Frá Rússlandi

Rússneskir fjölmiðlar fjalla um mál íslensku stúlkunnar sem var skiptinemi í borginni Astrakhan í Rússlandi og varð ungum pilti að bana fyrr í mánuðinum. Stúlkan sem nú er stödd á Íslandi er sögð eiga yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisdóm verði hún sótt til saka í landinu. Líklegra þykir þó að mál hennar verði rekið fyrir íslenskum dómstólum.

Það er fréttamiðillinn Moscow Times sem fjallar um mál stúlkunnar sem er sautján ára gömul og varð völd að voðaskoti sem leiddi til dauða pilts í fjölskyldunni sem stúlkan dvaldi hjá.

Líkt og Vísir sagði frá varð óhappið á föstudaginn í þarsíðustu viku en stúlkan kom til Íslands síðasta fimmtudag fyrir tilstuðlan sendiráðs Íslands í Moskvu.

Rannsóknarlögreglan er sögð rannsaka málið sem morðmál en stúlkan er sögð hafa flúið land. Utanríkisráðuneytið hefur þó gefið út að stjórnvöld í Rússlandi hafi þegar verið látin vita af veru stúlkunnar hér á landi.

Í umræddri blaðagrein er því haldið fram að verði stúlkan sótt til saka í Rússlandi gæti hún átt allt að tveggja ára fangelsisdóm yfir höfði sér.

Sagt er frá aðdraganda óhappsins en stúlkan er sögð hafa hringt í lögreglu og sjúkralið sem hafi mætt á staðinn. Pilturinn lést hins vegar fjórum dögum síðar.

Talsmaður Ríkissaksóknara segir að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um hvort krafist verði framsals á stúlkunni frá Íslandi þar sem rannsókninni sé ekki lokið og málið ekki komið í þeirra hendur.

Talsmaðurinn taldi þó líklegra að málið verði sent til Íslands og réttað verði yfir stúlkunni á Íslandi.






Tengdar fréttir

Voðaskotið í Rússlandi: Íslenska stúlkan kom til Íslands í gær

„Við getum staðfest það að 17 ára íslensk stúlka sem var skiptinemi í bænum Astrakahn í Rússlandi varð fyrir því að eiga aðild að því sem samkvæmt okkar heimildum er slysaskot. Það olli því að tvítugur piltur lést af völdum skotsársins á sjúkrahúsi," segir Pétur Ásgeirsson skrifstofustjóri hjá Utanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×