Íslenski boltinn

Atli Sveinn: Þurfum að eiga okkar allra besta leik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Atli Sveinn segir að Valur þurfi að leika sinn allra besta leik til að leggja FH á morgun.
Atli Sveinn segir að Valur þurfi að leika sinn allra besta leik til að leggja FH á morgun.

Áttunda umferð Landsbankadeildar karla verður leikin í vikunni. Fjórir leikir fara fram í kvöld og einn verður á morgun en það er stórleikur Vals og FH á Vodafone-vellinum.

Vísir ræddi við Atla Svein Þórarinsson, varnarmann Vals, í dag og spurði út í leikinn gegn FH. „Þetta verður bara skemmtilegt. Þeim hefur gengið talsvert betur en okkur, þeir hafa fleiri stig og þar af leiðandi líklega meira sjálfstraust. Við þurfum að eiga okkar allra besta leik til að vinna þá," sagði Atli.

Valsmenn geta þó varla beðið um betri leik til að koma liðinu loks á almennilegt flug. „Leikurinn gæti orðið þannig. Ég veit ekki hvernig staðan er á leikmannahópi FH en þeir hafa alveg sýnt það undanfarin ár að þegar menn detta út hjá þeim kemur sterkur maður í staðinn. Við reiknum því að sjálfsögðu bara með hörkuleik."

Valsliðið hefur saknað Guðmundar Benediktssonar sárt en hann er byrjaður að æfa aftur eftir meiðsli. „Já hann er byrjaður að æfa. Það verður frábært að fá hann til baka og við vonumst eftir honum sem fyrst. Ég get þó ekkert sagt um það hvort hann spili þennan leik á morgun," sagði Atli.

Í hádeginu var dregið í sextán liða úrslit VISA-bikarsins en Valur fær útileik gegn Breiðabliki. „Við hefðum klárlega viljað fá heimaleik. Sumir eru að leita eftir því að fá betri drátt og eitthvað en þetta er bara orðið þannig að það er sama hvaða liði þú mætir, þetta eru allt hörkuleikir. Það eina sem ég hefði viljað fá öðruvísi er að spila heima," sagði Atli.

„Það er alltaf gaman að spila við Breiðablik og eins og síðast þegar við mættumst þá voru mikil læti. Þeir eru á uppleið og hafa fengið Marel aftur sem hjálpar þeim mikið. Þetta verður erfiður leikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×