Innlent

Fróaði nemanda sínum einu sinni í viku í tvö og hálft ár

Ökukennarinn Haukur Helgason var dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir brot gegn fjórum drengjum. Haukur gekkst við flestum ákæruliðunum en taldi sig ekki hafa framið lögbrot.

Frá vori 1996 til nóvember 1998 kenndi Haukur pilti á aldrinum 14-17 ára á skellinöðru. Í tugi skipta fróaði hann piltinum en kynferðismökin áttu sér oftast stað á heimili Hauks eða í bifreið hans í Heiðmörk. Í nokkrum tilvikum í ökutímum en einnig á ferðalagi þeirra tveggja til Skandinavíu og Þýskalands sumarið 1997 eða 1998.

Á sama tímabili kenndi Haukur pilti á sama aldri á skellinöðru og síðar bifreið. Hann fróaði piltinum að jafnaði einu sinni í viku en kynferðismökin áttu sér stað á heimili Hauks í Reykjavík en einnig í ökutíma í bifreið hans í Heiðmörk.

Þriðja piltinum kenndi Haukur einnig á skellinöðru og braut hann gegn blygðunarsemi hans í 2-3 skipti frá hausti 2002 til vors 2003. Brotin áttu sér stað í bílskúrum í Garðabæ og Hafnarfirði en piltinn fékk hann til þess að afklæðast og tók af honum fjölda mynda þar sem pilturinn var fáklæddur eða nakinn. Pilturinn var 15 og 16 ára þegar brotin áttu sér stað.

Einnig var Haukur dæmdur fyrir að hafa fjölda annarra mynda í fórum sínum. Myndirnar voru ýmist af fyrrgreindum piltum eða fjórða piltinum. Á heimili Hauks var samtals lagt hald á 3804 ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Margar myndanna tók hann sjálfur. 83 ljósmyndir fundust í myndaalbúmi, 87 ljósmyndir á filmum sem voru framkallaðar, á minniskorti fundust 194 ljósmyndir og 3440 myndir fundust á átta geisladiskum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×