Innlent

Geðhjálp vill breytingar hjá Öryrkjabandalaginu

Svanur Kristjánsson.
Svanur Kristjánsson.

Stjórn Geðhjálpar vinnur nú að því að móta áherslur sem kynntar verða Öryrkjabandalagi Íslands þar sem farið er fram á ákveðnar breytingar hjá bandalaginu. Svanur Kristjánsson, formaður stjórnar Geðhjálpar segir að ekki verði samið um þessi atriði.

„Við munum setja fram ákveðnar áherslur skriflega og ræða þær síðan við Öryrkjabandalagið," segir Svanur í samtali við Vísi. Hann segir áherslurnar lúta að tvennu. Annars vegar er um að ræða málefni Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins sem deilt hefur verið um að undanförnu.

Hins vegar er um vægi einstakra félaga innan ÖBÍ að ræða. „Skipulagið í dag er þannig innan Öryrkjabandalagsins að hvert félag hefur eitt atkvæði, óháð stærð félagsins. Þessu viljum við breyta," segir Svanur og bætir við að ekki verði fallist á málamiðlanir af hálfu Geðhjálpar.

„Verði ekki gengið að þessum áherslum okkar munum við í Geðhjálp meta stöðu okkar innan Öryrkjabandalagsins," segir Svanur Kristjánsson, formaður stjórnar Geðhjálpar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×