Innlent

Möguleiki að sjá hvort fé hafi verið skotið undan

Í fyrsta skipti eiga íslensk stjórnvöld raunhæfan möguleika á að komast að því hvort íslenskir athafnamenn hafi skotið fé undan til skattaparadísa í gegnum íslensku bankana í Luxemborg. Stjórnvöld þar í landi hafa tekið yfir rekstur bankanna.

Kaupþing í Luxemborg er dótturfélag móðurbankans hér á landi en lýtur lögum og reglum í Luxemborg. Luxemborg lítur lögum og reglum Evrópusambandsins en hefur þó fengið undanþágu - ásamt Austurríki og Belgíu á lögum varðandi bankaleynd.

Mikil og sterk hefð er fyrir bankaleynd í Luxemborg og hefur borgin verið nefnd sem hið fullkomna skjól fyrir fjármagnsflótta. Dæmigerður fjármagnsflótti á sér stað með því að fé er millifært frá Íslandi til Luxemburg og þar er jafnvel stofnað félag á þarlendri kennitölu. Féð er síðan millifært frá Luxemborg til eyja sem teljast til skattaparadísa. Með þessum hætti hefur verið nær ógjörningur fyrir íslensk yfirvöld að komast að því hvort auðmenn/ eða lögaðilar komi fjármagni undan.

Heimildir fréttastofu Stöðvar 2 herma að íslensku bankarnir í Luxemborg geymi dýrmætar upplýsingar um fjármagnsflótta frá Íslandi. Lögfræðingar sem fréttastofa hefur talað við í dag eru sammála um að nú skapist tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld að komast yfir þessar upplýsingar.

Bankaleyndin er virk þegar bankinn er starfandi en þegar bankinn er kominn í þrot horfi málið öðruvísi við. Þá hafi skiptaráðendur, lögreglan og skattayfirvöld víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar. Mikið samstarf hefur verið milli fjármálaeftirlita í Evrópu og ríkir gagnkvæm upplýsingaskylda þar á milli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×