Innlent

Ráðuneytisstjóri vanhæfur til að samþykkja breytingar lífeyrissjóðs

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, og undirmenn hans væru vanhæfir til að staðfesta breytingu á samþykktum lífeyrissjóðsins Gildis. Því væri lífeyrissjóðnum ekki heimilt að draga örorkulífeyri og tekjutryggingu sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir konunni sem höfðaði málið frá örorkulífeyri hennar hjá Gildi.

Konan sem varð öryrki árið 1981 stefndi lífeyrissjóðnum Gildi og vildi að dómur viðurkenndi að að við útreikning Gildis á örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda skyldi ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum. Reglum sjóðsins var breytt í þá átt árið 2005 þegar Gildi var til við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar, sem konan var í, og Lífeyrissjóðs sjómanna. Um svipað leyti urðu sams konar breytingar á Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Dómurinn komst að því að samkvæmt lögum beri að tilkynna fjármálaráðherra allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóða. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda heyrði undir fjármálaráðherra sem skipaði sjö manna stjórn. Breytingar á sanmþykktum Söfnunarsjóðsins og Gildis hefðu verið samþykktar af fjármálaráðuneytinu.

Benti dómurinn á að þeir starfsmenn ráðuneytisins sem hefðu samþykkt breytingarnar á samþykktum Gildis væru undirmenn Baldurs og að Baldur væri sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda vanhæfur til að fjalla um efnislega sambærilegar breytingar og gerðar voru á samþykktum Söfnunarsjóðsins hjá öðrum lífeyrissjóðum. Þar með hafi undirmennirnir verið vanhæfir. Ekki skipti máli að breytingin hefði verið gerð fyrir hönd ráðherra.

Var staðfesting ráðuneytisins á breytingum á samþykktum Gildis því ógild og sagði dómurinn að þar með væri óheimilt að draga örorkulífeyri og tekjutryggingu sem Tryggingastofnun ríkisins greiddi konunni frá örorkulífeyri hennar hjá Gildi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.