Innlent

Skorið niður um 20 prósent í utanríkis- og varnarmálum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.

Til stendur að skera niður í starfsemi utanríkiráðuneytisins fyrir um 2,2 milljarða króna. Ráðgert er að loka fjórum sendiskrifstofum og draga saman í varnartengdum verkefnum og þróunaraðstoð. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Utanríkisráðuneytið, sem er fyrst ráðuneyta til að tilkynna um aðhaldsaðgerðir, hyggst skera niður í varnartengdum verkefnum sem eru aðallega á sviði Varnarmálastofnunar og í þróunarsamvinnu. Varnarmálastofnun var stofnuð fyrr á þessu ári og tók til starfa í sumar.

Óljóst er hvaða sendiskrifstofum verður lokað. Einnig eru boðaðar skipulagsbreytingar og hagræðing innan ráðuneytisins sjálfs.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir að heildarútgjöld utanríkisráðuneytisins yrðu tæplega 11,5 milljarðar. Samkvæmt tillögunum má ætla að niðurskurður í starfsemi ráðuneytisins verði í rúmlega 20%.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, mun síðar í dag kynna nánar fyrirhugaða hagræðingu og sparnað í ráðuneytinu á fundi með blaðamönnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×