Innlent

Sinnuleysi stjórnvalda í efnahagsmálum

Stjórnvöld hafa sýnt sinnuleysi gagnvart versnandi horfum í efnhagsmálum að mati framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins. Hann segir ljóst að kjarasamningar verði í uppnámi gangi verðbólguspá Seðlabankans eftir.

Gert er ráð fyrir því að verðbólga verði 11 prósent í lok þessa árs samkvæmt verðbólguspá Seðlabankans sem birt í Peningamálum á fimmtudaginn.

Verðbólguviðmið í nýgerðum kjarasamningum er hins vegar 5,5 prósent og því er ljóst að gangi spá Seðlabankans eftir mun reyna verulega á forsendur kjarasamninga. Nú mælist verðbólgan 8,7 prósent.

Þá segir einnig í Peningamálum Seðlabankans að miklar líkur séu á því að endurskoðunarákvæði kjarasamninga verði virk í ljósi verðbólguhorfa og heimilt verði að semja um viðbótarhækkun launa.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, sagði í samtali við fréttastofu ljóst að gangi spá Seðlabankans eftir verði kjarasamningar í uppnámi.

Hann bendir hins vegar á að menn hafi áður staðið frammi fyrir verri spám og reynslan hafi sýnt að með samstilltu átaki stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sé hægt að koma í veg fyrir að þær rætist.

Gylfi segir stjórnvöld hins vegar hafa sýnt fullkomið sinnuleysi í þessu máli og bendir á því samhengi að samráðsvettvangur ríkisstjórnarinnar um mótun efnahagsstefnunnar hafi ekki verið kallaður saman síðan í júlí í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×