Innlent

Ummæli Jakobs gera hann ekki vanhæfan og varða ekki áminningu

Ummæli Jakobs Frímanns Magnússonar, framkvæmdastjóra miðborgarmála, um Dag B. Eggertsson, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, gera hann ekki vanhæfan til þess að sinna starfi sínu hjá borginni. Ummælin varða heldur ekki áminningu eða öðrum agaviðurlögum samkvæmt reglum um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í svari Kristbjargar Stephensen borgarlögmanns við fyrirspurn minnihlutans í borgarráði.

Borgarfulltrúar Vinstri - grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leituðu álits lögmannsins eftir að Jakob Frímann hafði meðal annars látið þau orð falla í viðtölum að Dagur væri bitur læknir sem ekki gæti unað öðrum lækni að sitja í stóli borgarstjóra. Þessi orð taldi minnihlutinn sýna að Jakob Frímann gætti ekki hlutleysis sem embættismaður borgarinnar og vildu fá úr því skorið hvort hann gæti sinnt starfi sínu með eðlilegum hætti fyrir ráð og nefndir borgarinnar vegna orðanna.

Jakob Frímann ekki embættismaður

Borgarlögmaður kemst að því að Jakob Frímann gegni ekki stöðu embættismanns hjá borginni heldur verkefnisstjóra sem ráðinn sé tímabundið. Tjániningarfrelsi opinberra starfsmanna sé varið með stjórnarskránni og vísað er til álits umboðsmanns Alþingis vegna þess.

„Þegar ummæli þess starfsmanns sem fyrirspurnin lýtur að eru virt, staða hans í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem og það að persóna mannsins hafði blandast inn í fjölmiðlaumræðu, sem varð í kjölfar harkalegrar pólitískrar umræðu, verður ekki talið að þau séu þess eðlis að áminningu sæti," segir borgarlögmaður.

Um almennt hæfi til að sinna störfum segir borgarlögmaður að almennt hafi verið viðurkenndur sá skilningur meðal stjórnenda og annarra starfsmanna sem gegna sérstökum trúnaðarstörfum fyrir Reykjavíkurborg að í trúnaðarskyldum þeirra felist að þeir tjái sig ekki með persónulegum hætti um persónur og pólitísk deiluefni sem efst eru á baugi hverju sinni.

„Umræddur starfsmaður, sem fyrirspurnin lýtur að, gegnir ekki slíkri stöðu hjá Reykjavíkurborg auk þess sem hann var nýtekinn við starfi sínu og því ekki óeðlilegt að honum væri ekki kunnugt um þessa annars viðurkenndu venju. Að lokum ber að líta til þess að persóna hans blandaðist inn í fjölmiðlaumræðu sem spannst í framhaldi af harkalegri pólitískri gagnrýni og því ekki óeðlilegt að hann svaraði spurningum sem fjölmiðlar beindu að honum þótt þau svör væru vissulega með öðrum hætti en menn eiga almennt að venjast frá starfsmönnum borgarinnar og embættismönnum sérstaklega," segir borgarlögmaður enn fremur.

Álitið í heild sinni má sjá hér að neðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×