Innlent

Bakarísstelpa stígur fram: Hnetuvínarbrauð afþídd í bakaríum

SB skrifar
Suðurver. Fyrrverandi starfsmaður segir hnetuvínarbrauð flutt inn frosin.
Suðurver. Fyrrverandi starfsmaður segir hnetuvínarbrauð flutt inn frosin.

„Bakkelsið kom næstum allt inn frosið og svo vorum við látin hita það upp," segir Heiðrún Backmann, fyrrverandi starfsmaður Bakarameistarans. Svo virðist sem bakaríin baki ekki bakkelsi á staðnum heldur láti afgreiðslustúlkur hita upp forbakaðar og frostnar vörur.

Í viðtali við Vísi fyrir helgi sagði Vigfús Kr. Hjartarson, framkvæmdastjóri Bakarameistarans, að hjá Bakarameistaranum væru aðeins kleinuhringir fluttir frosnir inn frá útlöndum. Hann gagnrýndi stórmarkaðina fyrir að auglýsa brauð og bakkelsi sem væri „bakað á staðnum" þegar það væri í raun flutt inn frosið.

Heiðrún starfaði í bakaríinu Suðurveri frá mars 2007 fram í júní á síðasta ári. „Ég man að hnetuvínarbrauðið, skinkuhornin og kleinuhringirnir kom allt frosið frá útlöndum. Vínarbrauðin, ostarúnnstykkin og hitt kom ekki frá útlöndum en var samt frosið og við vorum látin hita það upp. Það eina sem var ferskt í búðinni voru snúðarnir, brauðin og rúnnstykkin."

Heiðrún segir það ekki hafa verið auðvelt að starfa við þessar aðstæður. „Nei, manni leið ekki vel með þetta. Fólk hélt það væri að kaupa nýbakaðar og ferskar vörur."

Vísir.is bar ummæli Heiðrúnar undir Vigfús, framkvæmdastjóra Bakarameistarans. Hann sagði það rétt að auk kleinuhringjanna væru hnetuvínarbrauðin flutt inn frá útlöndum. Allt annað bakkelsi væri þó bakað á Íslandi.

"Varan er hefuð og forfryst til að hægt sé að flytja á milli staða og svo er hún fullbökuð. Þannig að hún er ekki bara hituð upp. Hún er bökuð. Í stórmörkuðunum eru brauðin hins vegar flutt inn hálfbökuð frosin. Það er himinn og haf þar á milli."

Vigfús segir að stóra spurningin sé ekki heldur aðferðin: „Spurningin er ekki aðferðin heldur hvað er innlend framleiðsla eða erlent."

Og miðað við uppljóstranir bakarísstelpunnar Heiðrúnar er ljóst að hnetuvínarbrauðin og kleinuhringirnir eru það ekki.


Tengdar fréttir

Frosið brauð sagt bakað á staðnum

Stórmarkaðurinn Krónan auglýsir brauð sem sé "bakað á staðnum". Deigið er hins vegar flutt til landsins frosið og forbakað og aðeins hitað upp í stórmörkuðunum. Framkvæmdastjóri Bakarameistarans segir bakstur lögverndaða iðn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×